Kona forntónlistarhátíð fer í ár fram á tveimur stöðum, í Fella- og Hólakirkju í Breiðholti og í Kristskirkju. Dagskrá hátíðarinnar er sem hér segir:
Krakkabarokk í Breiðholti í Fella- og Hólakirkju sunnudaginn 24. september kl 15.
Á þessum tónleikum kemur ReykjavíkBarokk fram með Kór Hólabrekkuskóla, fiðlunemendum úr Tónskóla Sigursveins og Fellaskóla, blokkflautunemendum úr Tónlistarskóla Hafnarfjarðar og einsöngvurunum Ástu Sigríði Arnardóttur sópran og Ólafi Þórarinssyni drengjasópran. Flutt verður fjölbreytt efnisskrá tónlistar frá barokktímanum í bland við íslensk kvæðalög.
Barokkmessa í Fella- og Hólakirkju sunnudaginn 24. september kl 17.
Kammerhópurinn ReykjavíkBarokk sér um tónlistarflutning í “barokkmessu” í Fella- og Hólakirkju með þeim Ástu Sigríði Arnardóttur sópran og Ólafi Þórarinssyni drengjasópran. Flutt verða verk eftir Isabellu Leonarda, Lucretiu Vizzana og Georg F. Haendel.
Componimenti Musicali eftir Lucretiu Vizzana í Kristskirkju þriðjudagskvöldið 3. október kl 20
Mótettusafnið Componimenti Musicali eftir ítölsku nunnuna Lucretiu Vizzana er einstakt í tónlistarsögunni. Verkið var gefið út í Feneyjum fyrir 400 árum síðan og er eitt fárra verka sem varðveist hefur eftir þær fjölmörgu konur sem léku og sömdu tónlist innan ítalskra klausturmúra á 17. öld. Kammerhópurinn ReykjavíkBarokk flytur safnið í heild sinni með Sigurði Halldórssyni sellóleikara, Ástu Sigríði Arnardóttur sópran og Lilju Dögg Gunnarsdóttur alt í Kristskirkju í Landakoti þriðjudagskvöldið 3. október.
