Kona forntónlistarhátíð 2025 – Frumkvöðlar

Forntónlistarhátíðin Kona verður haldin í fjórða sinn í október 2025 og að þessu sinni á Þjóðminjasafni Íslands. Að hátíðinni stendur Kammerhópurinn ReykjavíkBarokk í samstarfi við Þjóðminjasafnið en allir viðburðir hátíðarinnar tengjast munum á grunnsýningu safnsins, „Þjóð verður til”. 

Yfirskrift hátíðarinnar í ár er „Frumkvöðlar” og ber efnisskrá hátíðarinnar þess merki en þar verður flutt tónlist eftir konur sem brutust út úr hefðbundnum kynhlutverkum síns tíma til þess að sinna list sinni. 

Flutt verður m.a. tónlist úr óperunni La Liberazione di Ruggiero eftir ítalska tónskáldið Francescu Caccini (1587-1640) sem talin er elsta ópera eftir kventónskáld, fiðlusónata eftir tónskáldið og nunnuna Isabellu Leonarda (1620-1704) sem er úr elsta varðveitta hljóðfærasónötusafni eftir kventónskáld og strengjakvartett eftir tónskáldið, fiðlusnillinginn og óperusöngkonunna Maddalenu Lombardini Sirmen (1745-1818) sem var eitt af tónskáldunum sem fyrst gerðu tilraunir með strengjakvartettformið á síðari hluta 18.aldar.

Fyrir hverja tónleika verður boðið upp á leiðsögn um grunnsýningu Þjóðminjasafnins um muni sem tengjast tónlistinni sem flutt verður. Leiðsögnin hefst í anddyri safnsins klukkan 14. Að henni lokinni, kl.14:30 verður gestum vísað á tónleikastað í safninu. 

Gestir greiða einungis hefðbundinn aðgangseyri að safninu á viðburði hátíðarinnar. Aðgangur að safninu er ígildi árskorts og geta gestir því hlýtt á alla viðburði hátíðarinnar fyrir eitt verð. 

Þrír viðburðir verða á hátíðinni:

11.október 

Halldóra og Francesca – 1625

Árið 1625 er í brennidepli á þessum tónleikum en það ár mörkuðu tveir frumkvöðlar spor sín í söguna, önnur á Íslandi og hin á Ítalíu. Á tónleikunum verður flutt tónlist úr óperunni La liberazione di Ruggiero frá 1625 eftir ítalska tónskáldið Francescu Caccini (1587-1640). Óperan er ein sú fyrsta sem vitað er að var flutt opinberlega og sú elsta sem varðveist hefur eftir kventónskáld. Aríum, óperukórum og hljóðfæratónlist er fléttað saman við messusöng úr messusöngbók Guðbrands Þorlákssonar Hólabiskups (1573-1658) , Grallaranum, sem gefinn var út 1594 og var því í mikilli notkun á Íslandi þegar Caccini samdi sína óperu á Ítalíu. Í ágúst 1625 skrifaði Halldóra (1573-1658), dóttir Guðbrands biskups, Danakonungi bréf sem er elsta bréf eftir íslenska konu sem varðveist hefur. Í bréfinu falaðist Halldóra eftir því að fá staðarforráð á Hólum í veikindum föður síns og var veitt sú staða hálfu ári síðar. Á 400 ára ártíð þessa örlagaríka árs í lífi kvennanna tveggja teflum við þeim saman í gegnum tónlistina sem umvafði tilveru þeirra.

Leiðsögn á undan þessum tónleikum fjallar um muni úr eigu fjölskyldu Halldóru og málverk af helstu persónum og leikendum koma við sögu.

Leiðsögn: Helga Vollertsen

Flytjendur:

Kammerhópurinn ReykjavíkBarokk

Ásta Sigríður Arnardóttir, sópran

Lilja Dögg Gunnarsdóttir, alt

12. október 

Til þín, María

Til þín, María er dagskrá þar sem María guðsmóðir birtist áheyrendum í listsköpun, tónum og tali. 

Innblástur sýningarinnar er bók Elsu E. Guðjónsson Með verkum handanna sem Þjóðminjasafn Íslands gaf út árið 2023 og þá sérstaklega Maríuklæðið frá Reykjahlíð frá 15.öld sem fjallað er um í bókinni og varðveitt er á þjóðminjasafni Dana í Kaupmannahöfn. Refilsaumurinn lifnar við þegar lesið er úr handriti Maríu sögu frá 14. öld og ljóðabók Sonju B. Jónsdóttur; Í myrkrinu fór ég til Maríu sem kom út árið 2023. Flutt verða fornir íslenskir Maríusöngvar og kvæði úr handritum og verk eftir ítalska tónskáldið og nunnuna Isabellu Leonarda (1620-1704), þar á meðal nokkrir kaflar úr mótettunni In te Maria op. 14 sem er frumflutningur á Íslandi.

Leiðsögn í aðdraganda þessa tónleika tengist útsaumi og öðrum listaverkum sem tengjast Maríu guðsmóður og eru varðveitt á Þjóðminjasafni Íslands.

Leiðsögn: Helga Vollertsen

Flytjendur:

Diljá Sigursveinsdóttir, hugmyndasmiður, söngur, barokkfiðla og upplestur

Anna Hugadóttir: barokkvíóla

Sólveig Thoroddsen, barokkharpa

Sergio Coto Blanco, theorba

19. október: 

Frumkvöðlar strengjakvartettsins

Á þessum tónleikum verður flutt tilraunatónlist frá 18. öld, það er strengjakvartettar eftir þrjú tónskáld sem öll gerðu tilraunir með og þróuðu strengjakvartettformið eins og við þekkjum það í dag. Flutt verða verk eftir Joseph Haydn, Luigi Boccherini og Maddalenu Lombardini Sirmen en árið 1769 gáfu þau öll út safn kvartetta sem eru hver öðrum fjölbreyttari að efnistökum og aðferðum. 

Leiðsögn á undan þessum tónleikum tengist ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar sem gefin var út 1772 og heimsókn Joseph Banks til Íslands sama ár. Forvitnilegt er að skoða íslenskan veruleika 18. aldar í ljósi tónlistarinnar sem samin var á meginlandi Evrópu á sama tíma. 

Leiðsögn: Helga Vollertsen

Flytjendur:

Hildigunnur Halldórsdóttir, barokkfiðla

Diljá Sigursveinsdóttir, barokkfiðla

Anna Hugadóttir, barokkvíóla

Sigurður Halldórsson, barokkselló